Grein í tímaritinu Hús og Híbýli | Febrúar 2025.
Guðfinna Magnúsdóttir stofnaði hönnunarfyrirtækið VIGT ásamt systrum sínum Örnu og Hrefnu og móður þeirra Huldu Halldórsdóttur árið 2013. Síðan þá hafa mæðgurnar framleitt hágæða húsgögn og fylgihluti þar sem megin áherslan er á staðbundna framleiðslu. Þar taka þær þátt í öllu ferlinu, frá hugmynd og hönnun til framleiðslu og dreifingar. Áhugi mæðgnanna fyrir sköpun og fallegum hlutum hefur lengi verið til staðar. Þær hafa allar lifað og hrærst í heimi innréttinga og mannvirkjagerðar hjá farsæla fjölskyldufyrirtækinu Grindin sem hefur verið starfrækt síðan 1979. Sýningarsalur og vinnustofa VIGT er staðsett í gamla hafnarhúsinu í Grindavík. Vonir standa til að hægt verði að bjarga húsinu eftir þær miklu jarðhræringar sem náðu þar hámarki veturinn 2023. Þrátt fyrir erfiðar ákvarðanir og mikla óvissu hefur þeim tekist að halda VIGT gangandi. Guðfinna segir að mæðgurnar séu ekki tilbúnar að gefast upp á ástríðu sinni og ætla að halda áfram að hanna og framleiða undir merki VIGT.

ÓVISSAN ERFIÐUST
Föstudagurinn 10. nóvember 2023 mun seint renna úr minni íbúa Grindavíkur og flestra landsmanna en þá neyddist heilt bæjarfélag að yfirgefa heimili sín. Guðfinna segir að aðstæður hafi tekið verulega á persónulega og rekstrarlega. Þegar við kíktum á verkstæðið til þeirra í Grindavík var búið að flytja lagerinn aftur til Grindavíkur. Það lá vel á henni þrátt fyrir að húsið væri girt af að framan vegna sprungu sem liggur að hluta til undir húsinu. Guðfinna sagði okkur frá ótrúlegri atburðarás VIGT frá 10. Nóvember 2023 ásamt merkilegri sögu fyrirtækisins. „Við erum rétt að ná áttum fyrst núna. Við svona aðstæður fer allt á hvolf og í næstum heilt ár var bara hægt að hugsa um einn dag í einu. Öll áform breytast og það þarf að endurhugsa hlutina. Góðu dögunum fer nú fjölgandi þó við séum enn að vinna úr áfallinu. 2022 og 2023 gekk mjög vel og svo kemur þetta mikla högg. Við höfum nánast ekki tekið á móti viðskiptavini í VIGT síðan klukkan 16:30 þann 10. Nóvember 2023, en um klukkan 18:00 þann sama dag var varla verandi í Grindavík og flestir þegar farnir úr bænum. Strax um nóttina lokuðum við vefversluninni því fyrstu dagana vorum við bara að bíða eftir að allt færi undir hraun, þar með talið lagerinn. Þegar það opnaðist gluggi fyrir verðmætabjörgun fórum við og tæmdum allan sýningarsalinn og lagerinn. Það var öllu sópað út í bíl, vörum, einhverjum verkfærum og ýmsum öðrum óþarfa eins og yfirstrikunarpennum. Í svona aðstæðum er oft ekki svigrúm til að hugsa skýrt. Þessu var öllu komið fyrir hingað og þangað hjá fólki sem hafði samband og átti fermetra lausa til að geyma vörur og dót fyrir okkur. Verslunin Verma tók þann lager sem við vorum búnar að byggja upp fyrir jólin og þjónustuðu okkar síðu undir sinni. Við getum aldrei þakkað þeim nógu mikið fyrir að grípa okkur á þessum tímapunkti þar sem við vorum í engri aðstæðu til að þjónusta vefverslunina sjálfar. Það var ekki fyrr en í ágúst eftir náttúruhamfarirnar sem við opnuðum aftur vefsíðu VIGT og síðan þá hefur gengið vel miðað við allt. Starfsemin hefur haldist gangandi síðan 10.nóvember fyrir utan nokkra vikna tímabil þegar öllum var meinaður aðgangur að Grindavík. Þá kom stopp á framleiðsluna en núna erum við á góðri leið og höfum aðlagast snöggum rýmingum við ítrekuð eldgos í nágrenninu“.

VILJA VERA ÁFRAM Í GRINDAVÍK
Allur starfshópurinn er fluttur frá Grindavík og keyrir þess í stað frá nágrannasveitarfélögum á verkstæðið. Guðfinna segir að hópurinn sé bjartsýnn og að þeim langi ekkert meira en að halda framleiðslu áfram. „Við höfum fengið leyfi til að opna aftur sýningarsal VIGT en þá þurfum við að fara í uppbyggingu. Planið er að gera sýningarrýmið huggulegt á ný svo við getum tekið á móti fólki aftur í einhverri mynd. Við erum þó enn í biðstöðu hvað varðar afdrif húsnæðisins þar sem sprunga liggur undir framhluta viðbyggingarinnar. Okkur er óhætt að vera inni í húsinu en göngum inn í það að aftanverðu. Við bíðum svara varðandi hvort eða hvað er hægt að gera til að forða húsnæðinu frá skemmdum þannig að óvissan hangir yfir. Allt frá upphafi höfum við sjálfar annast sölu á vörunum, við höfum tekið á móti viðskiptavinunum í sýningarsalnum okkar og þjónustað í vefversluninni. Vegna breyttra forsenda þurfum við bráðlega að taka ákvörðun um nýjar söluleiðir og erum með opinn huga hvað það varðar. Við ætlum að sjálfsögðu að halda áfram að hanna og framleiða fyrir vörumerkið og koma því frekar á framfæri. Það eru komin 12-13 ár síðan við stofnuðum VIGT þannig að við erum ekki tilbúnar að gefast upp.“
UPPHAF VIGT
Stofnun VIGT var ákvörðum sem mæðgurnar tóku árið 2010 og þremur árum seinna byrjuðu þær með rekstur. Fjölskyldan hefur ætíð verið afar samheldin og allir voru tilbúnir að sameina krafta sína til að láta drauminn rætast. „Ég ólst upp hér í Grindavík og lífið í kringum daglegan rekstur Grindarinnar inn á heimilinu mínu mótaði mig mikið. Ég lærði ljósmyndun árið 2007, flutti eftir það til Kaupmannahafnar og á þeim tíma leggjum við grunninn að Vigt. Við systur höfum fjölbreytta menntun sem gerir okkur kleift að tvinna krafta okkar saman í VIGT. Elst af okkur er Arna sem er tækniteiknari, næst í röðinni er Hrefna sem er gullsmiður og hefur unnið á verkstæðinu síðan hún var unglingur. VIGT var eitthvað sem við stefndum að og langaði að gera með alla þá þekkingu sem við höfðum. Pabbi og mamma voru til í þetta með okkur. Þau eru miklir reynsluboltar og hafa verið hluti af VIGT alveg frá byrjun, og við auðvitað hluti af Grindinni með þeim. Þegar við erum að byrja með Vigt þá vorum við búin að kaupa gamla hafnarvigtarhúsið sem stendur við hlið verkstæðisins. Þar hafa höfuðstöðvar okkar og sýningarsalur verið frá upphafi og þaðan kemur nafnið. Eldri hluti hússins er algjörlega upprunalegur og hafnarvigtin er enn hér fyrir framan. Vörubílarnir keyrðu þá hérna inn og farmurinn var vigtaður. VIGT er afsprengi af Grindinni sem foreldrar okkar Hulda og Magnús Guðmundsson stofnuðu saman rétt orðin tvítug ásamt afa mínum Guðmundi Óskari Ívarssyni og fleirum. Á meðan Grindin er þekktust fyrir innréttingar og húsasmíði erum við með húsgögn og fylgihluti. Fljótlega dreymdi okkur um að stækka sýningarsalinn, svo við fórum í framkvæmdir árið 2020 þar sem við byggðum við og þar með stækkaði húsnæðið töluvert. Við kappkostuðum við að skapa lifandi rými sem veitti viðskiptavinum innblástur. Á sama tíma hafði VIGT menningarlegt gildi fyrir bæjarfélagið. Fyrir hamfarirnar var mikið líf hér. Hér var handverksbrugghús undir sama þaki þannig við gátum nýtt sýningarsalinn saman. Gestir gátu komið að heimsækja okkur og notið góðra veiga hjá strákunum í 22.10 Brugghús. Þetta voru skemmtilegir tímar“.
SÆKJA INNBLÁSTUR Í HVOR AÐRA
Guðfinna segir að markmið VIGT sé að framleiða tímalausar vörur með einfaldleika og gæði í fyrirrúmi. Vörurnar frá þeim eru í öllum stærðum og samanstanda af húsgögnum og fylgihlutum. Í húsgagnalínu VIGT má finna m.a. borð, bekki og standa. Af fylgihlutum má síðan nefna bakka, hillur, spegla, snaga, púða og margt fleira sem heilla augað. „Ég myndi segja að við sækjum mest innblástur í hvor aðra, það sem okkur finnst vanta, umhverfið og náttúruna. Svo auðvitað allskonar strauma sem eru í gangi í hönnunarheiminum sem maður er innblásinn af. Upphafið á fyrstu vörunni okkar, trébökkunum, var t.d. rétt fyrir brúðkaup Örnu systur árið 2009. Henni vantaði fallega bakka á veisluborðin, þannig að sjálfsögðu hönnuðum við nokkra í einum rykk. Síðar bættist hægt og rólega í vörulínurnar en við þróum þær mikið út frá hvað okkur finnst vanta á markað. Fyrsta húsgagnið frá okkur komu árið 2016 sem eru hringborð með snúningsdisk. Það getur tekið heillangan tíma að þróa vöru og við höfum farið af stað með margar vörur sem svo kannski ganga ekki upp því þær eru einfaldlega of kostnaðarsamar í framleiðslu hér á Íslandi.
ALLAVEGA - SÍÐAN 1982
Aðspurð hvaða vara er vinsælust um þessar mundir sagði Guðfinna að það sé klárlega gangaborð sem framleidd eru úr við.
„Þau eru hluti af húsgagnalínunni “Allavega” sem samanstendur líka af bekkjum og stöndum en línan er innblásin af bekk sem afi smíðaði fyrir gömlu Grindavíkurkirkju. Á bekkjunum hvíldu kistur á meðan á útförum stóð. Haustið 1982 var gamla kirkjan afhelguð og afi tók annan bekkinn með sér heim. Hann hefur gengt allavega hlutverkum síðan. Bekkurinn hafði verið á þvælingi á verkstæðinu í nokkur ár og okkur langaði að gera húsgagnalínu út frá honum. Vörulínan er framleidd hjá okkur í Grindavík og til að byrja með var hún einungis gerð úr við. Fyrir hönnunarmars 2021 ákváðum við að prófa smíða hluta af línunni úr Íslensku blágrýti í samvinnu við Steinkompaní og Granítsmiðjuna. Blágrýtið kom frá Hrepphólum í Hrunamannahreppi og var unnið hjá Steinkompaní. Granítsmiðjan tók svo við og annaðist smíðina.
Blágrýtið er frábær efniviður, það endist endalaust. Draumurinn er að sjá bekkina úti á almenningsstöðum, t.d. á fallegum útivistar eða útsýnissvæðum. Línan hefur hlotið Distributed Design verðlaunin sem veitt voru af nýsköpunarmiðstöð íslands. “ segir Guðfinna.

VANDA VAL FRAMLEIÐENDA TIL SAMSTARFS
Megnið af vörum VIGT eru framleiddar á verkstæðinu í Grindavík. Í einhverjum tilfellum vinna þær með öðrum framleiðendum t.d. járnsmiðum og steinsmiðum. Þær vanda hins vegar valið vel á framleiðendum og samstarfsaðilum hvort sem þeir eru á íslandi eða erlendis. Meginkröfur í framleiðsluferli VIGT eru að allar vörur séu unnar á mannúðlegan hátt og í eins mikilli sátt við umhverfið og hægt er.
„Okkur fannst vanta eitthvað meira með okkar vöru þegar við vorum að byrja. Þá aðeins með fyrstu vöruna okkar og þá einu á þeim tímapunkti, bakkana. Við vorum staddar á hönnunarsýningu í Kaupmannahöfn þarna árið 2012. Þar kynnumst við konu sem heitir Mille en hún er fjórða kynslóðin sem sér um framleiðslu og dreifingu á kertunum, ALTERLYSET. Við kolféllum fyrir kertunum sem afi hennar, Jens Andreas Dahl Hansen, hannaði og setti á markað árið 1950. Nú höfum við verið með kertin í sölu hjá okkur síðan 2012 og höfum alla tíð verið eini söluaðilinn á Íslandi. Fallegu kertin eru auðþekkjanleg á minimalísku útliti sínu og hafa þann eiginleika að geta staðið sjálf á borði eða gólfi. Í gegnum samstarfið höfum við kynnst Mille vel og erum góðar vinkonur í dag. Þetta er dýrmætt samstarf sem okkur þykir mjög vænt um en hún heyrir t.d. reglulega í okkur og vill fá okkar álit á litum fyrir næstu línu. Okkur fannst hún samræmast mjög vel okkar bakgrunni og gildum þar sem bæði fyrirtækin hafa sterka fjölskyldusögu, hanna handgerða muni og hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Við unnum ilmlínuna okkar í samstarfi við Mille, ilmlínuna sem við kusum að kalla OKKAR. Við völdum aðeins hreinar ilmkjarnaolíur í línuna og henni er best lýst sem: „skírskotun í uppruna okkar og bakgrunn, við. “
