VIGT x BLUE LAGOON SKINCARE
Í tilefni af 30 ára afmæli Silica Mud Mask kynnum við í samstarfi við íslenska vörumerkið Blue Lagoon Skincare, einstakan maskastand með spegli, unnin á verkstæðinu okkar í Grindavík.
Samstarfið stendur okkur nærri þar sem Blue Lagoon Skincare á rætur að rekja til Grindavíkur, þar sem saga þeirra hófst fyrir 30 árum.
Hönnunargripurinn hefur tvíþættan tilgang, annars vegar sem standur fyrir maskann og hins vegar sem spegill. Hliðina með speglinum má einnig nota sem lítinn bakka fyrir skartgripi eða fylgihluti. Hagnýt hönnun fyrir daglega helgisiði.
Skoða og versla settið :
https://is.skincare.bluelagoon.com/products/mirrored-mask-stand
Getið þið sagt okkur frá því hvernig VIGT varð til og hvað varð til þess að þið hófuð að vinna saman sem fjölskylda?
VIGT var stofnað af fjórum konum, móður og þremur dætrum hennar, sem allar hafa bakgrunn í hönnun og ástríðu fyrir handverki. Uppruninn er fjölskylduverkstæðið okkar í Grindavík þar sem varan verður til frá hugmynd og hönnun til framleiðslu og dreifingar. Verkstæðið hefur verið hluti af lífi okkar frá því við munum eftir okkur. Foreldrar okkar stofnuðu trésmíðaverkstæðið Grindin árið 1979 ásamt afa okkar og frænda og í því umhverfi ólumst við upp, umvafðar verkfærum, timbri og vönduðu handbragði.
Sunnudagar voru oft nýttir í að aka um byggingarsvæði í Reykjavík að skoða krana og steypumót. Það kann að hljóma óvenjulega en þessi reynsla í barnæsku mótaði áhuga okkar, fagurfræði og verkvit. Það lá því kannski beinast við að sameina krafta okkar og skapa eitthvað saman.
Árið 2013 varð VIGT að veruleika, sköpun byggð á uppruna okkar og rótum.
Nafnið kemur frá gamla Hafnarvigtarhúsinu í Grindavík, þar sem við settum upp fyrstu vinnustofuna okkar. VIGT stendur fyrir vægi, jafnvægi og styrk, gildin sem liggja enn á bak við allt sem við gerum.
Að vinna saman sem fjölskylda byggir á orðlausum skilningi, sameiginlegu máli sem byggir á trausti, reynslu og hugkvæmni. VIGT er meira en vörumerki fyrir okkur. Það sprettur úr arfleifð kynslóða, mótað af fólki og gæðum þess sem unnið er af alúð. Að vinna saman var ekki meðvituð ákvörðun, heldur eitthvað sem gerðist af sjálfu sér.
Hvaða áhrif hefur Grindavík á ykkar vinnu og hugmyndafræði sem hönnuði?
Rætur okkar í Grindavík ná allt aftur til 18. aldar, þar ólumst við upp umvafðar hráum náttúruöflum, hrauni, fjöru og sjó. Endalaust rými fyrir ímyndunaraflið, sterk sjálfsbjargarviðleitni og seigla, sem Grindvíkingum er í blóð borin, hafa mótandi áhrif.
Grindavík kenndi okkur að vinna með það sem við höfum, treysta sjálfum okkur og einblína á það sem skiptir máli. Einstakur lífsstíll fylgir búsetu þar – jarðbundinn, útsjónarsamur og einfaldur.
Traust fólksins í kringum okkur hefur fylgt okkur frá upphafi og það heldur áfram að móta okkar vinnu enn þann dag í dag. Að mörgu leyti hefst öll hönnun á því að snúa aftur heim, horfa inn á við og leita í ræturnar.
Hefur nýleg eldvirkni á svæðinu breytt sýn ykkar á landið og ykkar vinnu?
Eldvirknin minnti okkur á að ekkert er varanlegt. Allt getur breyst á augabragði. Þegar við þurftum að yfirgefa heimabæinn okkar í flýti, yfirgefa eigur okkar og jafnvel reikna með að þær gætu horfið undir hraun, vöknuðu spurningar um vægi hluta. Við vorum heil á húfi – var þá efnislegt gildi yfirhöfuð mikilvægt? Hvernig gætum við haldið áfram að skapa þegar við sjálfar vorum óvissar um mikilvægi efnislegra hluta? Með tímanum fundum við hve mikið hlutir skipta máli. Við þráðum að hafa þá hjá okkur – ekki bara vegna notagildis þeirra, heldur vegna þess að þeir gera heimilið hlýlegt og persónulegt. Þeir tengja okkur við minningar, upplifanir og það hver við erum.
Það var góð tilfinning að finna tilganginn og ástríðuna á ný, það var jarðtenging í sjálfu sér. Við höldum áfram að gera það sem við elskum – að hanna og skapa húsgögn og fylgihluti sem veita heimilum hlýju og karakter.
Hvernig hafa náttúruleg, íslensk hráefni áhrif á fagurfræði og nálgun ykkar í hönnun?
Við sækjumst eftir einföldum og hreinum efnivið til að mynda úr timbri, ull og steini. Þegar það er mögulegt notum við íslenskan efnivið, sérstaklega blágrýti, sem kemur fyrir í nokkrum verkum okkar. Við leggjum áherslu á að halda hlutunum náttúrulegum og láta efniviðinn njóta sín.
Hver voru ykkar fyrstu viðbrögð þegar Blue Lagoon Skincare leitaði til ykkar varðandi samstarf?
Rétt handan við fjallið okkar, Þorbjörn, liggur kyrrlátur heimur Bláa Lónsins. Við ólumst upp aðeins nokkrum mínútum frá því – renndum okkur á sleðum niður snæviþaktar brekkur með Lónið í augsýn, keyrðum þar fram hjá og veltum fyrir okkur: „Er það hér sem skýin verða til?“
Þetta er staður fullur af minningum, hluti af heimkynnum okkar.
Þegar við segjum fólki hvaðan við erum, segjum við oft: „Grindavík – rétt hjá Bláa Lóninu.“ Að baða sig þar hefur verið fastur liður í gegnum árin. Við höfum séð Lónið vaxa – frá því að vera staður heimamanna í það að verða heimsþekktur áfangastaður.
Það var því afar þýðingarmikið fyrir okkur að fá þetta tækifæri og að taka þátt í þessu verkefni með Blue Lagoon Skincare til að fagna 30 ára afmæli Silica Mud Mask með verki frá okkur - hlut sem heiðrar þetta einstaka náttúruundur og einkennisvöru þess sem hefur fylgt okkur megnið af lífinu.
Þetta samstarf á rætur sínar að rekja til nálægðar, minninga og djúprar virðingar fyrir því sem Lónið hefur orðið.
Fyrir okkur var þetta leið til að hafa áhrif á sögu sem alltaf hefur verið eins og hluti af okkar eigin.
Hvernig nálguðust þið hönnunina á nytjahlut eins og maskastandi sem er líka fagur fyrir augað?
Okkur langaði að maskastandurinn væri meira en nytsamlegur hlutur. Við vildum að hann yrði formfagur, gæti staðið á borði og myndi fegra heimilið og gleðja augað.
Standurinn hefur tvenns konar notagildi, önnur hliðin nýtist sem standur fyrir maskann. Hin hliðin er spegill - fullkominn í snyrtitöskuna eða sem frálegg fyrir skartgripi.
Með því að sameina þessa þætti tókst okkur að skapa hlut sem er bæði hagnýtur og fallegur – hlutur sem er hannaður til að færa meiri hlýju og fegurð inn í hversdaginn.
Vonandi verður alltaf maski tilbúinn í standinum til að grípa og njóta.
Getið þið sagt okkur frá efnivið standsins og hvers vegna þið völduð hann?
Maskastandurinn er gerður úr mahónívið. Hann varð fyrir valinu sökum þess hve mjúkur og þægilegur hann er í vinnslu, sem gerir okkur kleift að útfæra fínleg smáatriði. Á sama tíma er hann sterkur og endingargóður - fullkominn fyrir vöru sem er gerð til að endast.
Getið þið leitt okkur í gegnum hönnunarferlið?
Að hanna nýjan hlut krefst þess að horfa til margra þátta í einu: virkni, forms, efniviðar og útfærslu. Fyrir þetta verkefni byrjuðum við á því að hugsa um upplifunina – hvernig standurinn yrði notaður, hvar hann ætti heima og hvað hann þyrfti að rúma.
Þaðan kom jafnvægi, á milli notagildis og fagurfræði, einfaldleika og hlýju. Við völdum efnivið sem er þægilegur í hendi, bjuggum til formið og tryggðum að standurinn gæti sinnt hlutverki sínu af kostgæfni.
Hvað táknar þetta samstarf fyrir ykkur, persónulega eða faglega?
Þegar Blue Lagoon Skincare bauð okkur til samstarfs upplifðum við nánd, ekki aðeins landfræðilega heldur líka merkingarlega. Tvö vörumerki sem eiga uppruna sinn á sama svæði. Þetta var eins og að koma heim – bæði bókstaflega og tilfinningalega – og það hefur mikla þýðingu fyrir okkur.
Það er okkur mikill heiður að Blue Lagoon Skincare hafi valið okkur – takk fyrir traustið.
Við vonum að verkefnið endurspegli uppruna og elju vel gerðra hluta, með sameiginlegri sýn á sjálfbærni, hefð og handverk.
Viðtalið á heimasíðu BLUE LAGOON SKINCARE: